Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Frístundabíll Garðabæjar

17.01.2011
Frístundabíll Garðabæjar

Frístundabíll Garðabæjar vorið 2011

Ákveðið hefur verið að hefja rekstur „frístundabíls“ í Garðabæ nú á vorönn 2011. Stefnt er að því að hefja aksturinn mánudaginn 17. janúar og endurmeta verkefnið í lok þessa skólaárs.

Markmiðið með frístundabíl er að hægt verði að samþætta betur íþrótta- og tómstundastarf við skólastarfið og hafa það í einni samfellu. Jafnframt er markmiðið að nýta betur íþróttamannvirki Garðabæjar. Á þessari önn verða töflur íþrótta- og tómstundafélaga óbreyttar en ef tilraunarverkefnið gengur vel, er horft til þess að hægt verði að hefja íþrótta- og tómstundastarf fyrr á daginn næsta haust. Stefnt er að því að yngstu iðkendurnir verði búnir að stunda sitt íþrótta- og tómstundastarf þegar þeir eru sóttir í lok vinnudags. Tengt því er ætlunin að setja upp eina æfingatöflu sem gildir til næstu ára. 

Akstursleiðin er ákaflega einföld og eingöngu stoppað á eftirtöldum stöðum: Hofsstaðaskóli (Mýrin), Tónlistarskóli Garðabæjar, Ásgarður og Sjálandsskóli (íþróttahús).  Þessi leið verður ekin frá kl. 14:30 til 17:00 alla virka daga og er gert ráð fyrir einni ferð fram og til baka á hverjum 30 mín. Farið verður frá Mýrinni á heila og hálfa tímanum en á korterinu frá íþróttahúsinu Sjálandi.

Frístundabíllinn er hugsaður til þess að keyra börn frá skólunum (tómstundaheimilum) í íþrótta- og æskulýðsstarf og minnka þannig umferð einkabíla við skólana.  Það á að vera nokkur fjárhagslegur sparnaður og hagræði í því fyrir foreldra að þurfa ekki að fara fyrr úr vinnu til þess að aka börnum í íþrótta- og tómstundarstarfið, en í dag hefst það um kl. 15 á daginn.

Að sjálfsögðu hvetur Íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar til þess að þeir sem treysta sér til gangi til og frá skóla og í tómstundastarfið, þótt nauðsynlegt geti verið að aka yngstu iðkendum á þá staði þar sem starfið fer fram.   

Kostnaður hvers þátttakanda er kr. 7.500,- fyrir önnina, óháð því hve mikið bíllinn er nýttur á tímabilinu. Það er því hagkvæmast að vera með frá byrjun. Akstur fyrstu vikuna er þó opinn öllum börnum endurgjaldslaust.

Skráning barna í frístundabílinn fer fram á „Mínum Garðabæ“. Aðgangskort verða gefin út og afhent á skrifstofum skólanna. Listi yfir þau börn sem eru áskrifendur að bílnum mun liggja frammi á tómstundaheimilunum svo starfsmenn geti aðstoðað börnin við að vera tilbúin á réttum tíma.

Það er á ábyrgð barnanna sjálfra að skila sér í frístundabílinn og að hafa aðgangskortin með sér til að sýna í bílnum.

Tímataflan er einföld.

Mýrin á heila og hálfa tímanum og hefst 14:30

Tónlistarskólinn fimm mínútur yfir ....  

Ásgarður tíu mínútur yfir .....

Sjáland korter fyrir og yfir....

Bíllinn staldrar við í eina mínútu á hverjum stað.

 

Með von um gott samstarf,

Kári Jónsson, Íþróttafulltrúi Garðabæjar

Til baka
English
Hafðu samband