Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Nýr starfsmaður félagsmiðstöðvar

13.09.2012
Nýr starfsmaður félagsmiðstöðvar

Nýr starfsmaður, Helga Vala, hefur verið ráðinn í félagsmiðstöðina Herkulez í Sjálandsskóla.

Félagsmiðstöðin Herkulez í Sjálandsskóla er staðsett inni í unglingadeild skólans og er opin á fimmtudagskvöldum frá 19.30-22.00.

Sú nýbreytni á sér stað í Garðabæ að Herkulez er nú orðin sjálfstæð eining og tilheyrir nú ekki lengur Garðalundi. Þrátt fyrir þessa breytingu munum við vinna í miklu samstarfi við starfsmenn Garðalundar og eru nemendur ávallt velkomnir að sækja opin hús í Garðalundi (www.gardalundur.is ).

Hlutverk félagsmiðstöðvarinnar er að styðja við börn og unglinga í gegnum fjölbreytt tómstundastarf, hópefli og hópastarf. Megin markmið starfsins er að veita þeim tækifæri til samveru og stunda heilbrigðar tómstundir undir leiðsögn reyndra tómstundaleiðbeinenda. Leiðarljós starfsins er að efla félagsfærni og sjálfsmynd barna og unglinga. Unnið er út frá hugmyndafræði barna- og unglingalýðræðis, hugmyndum og áhugasviði nemenda skólans . Leitað verður eftir röddum nemenda hvað varðar starfsemi og þær uppákomur sem verða hverju sinni, innra starf og umgjörð. Stefnan er að opna fyrir skipulagt starf í miðdeild í vetur sem mun vonandi fara af stað á haustönn.

Félagsmiðstöðin heldur utan um félagsmálaval skólans sem og stjórn nemendafélagsins.

Starf vetrarins er spennandi og framundan eru opin hús með ýmsu sniði, böll og þátttaka í Samfés viðburðum eins og Landsmót,  Rímnaflæði og Stíll (www.samfes.is).

Félagsmiðstöðin er með facebook síðu þar sem helstu upplýsingar um viðburði, myndir og starfið verða að finna. Ég hvet foreldra til að óska eftir vináttu við  félagsmiðstöðina til að fylgjast vel með félagsstarfinu. Hægt er að finna okkur undir „Félagsmiðstöðin Herkulez“.  Einnig munu koma upplýsingar inn á heimasíðu Sjálandsskóla.

 

Myndir frá opnu húsi í Herkulez

 

 

Til baka
English
Hafðu samband