Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Forvarnarvika -Börn og snjallsímar

06.10.2016
Forvarnarvika -Börn og snjallsímar

Vikuna 10.-14. október er forvarnavika í Garðabæ.

Yfirskriftin þessa vikuna er snjallsímanotkun barna og unglinga og má til gamans geta að slagorðið sem notast verður við í vikunni í auglýsingaskyni í bænum kemur frá hópi nemenda úr 8.-10. bekk hér í Sjálandsskóla.
Slagorðið er: „Ertu gæludýr símans þíns?“

Fræðslufundur fyrir foreldra veður haldinn hér í Sjálandsskóla þriðjudaginn 11.október kl.20-22.

Í lok mánaðarins fór fram teiknimyndasamkeppni þar sem nemendur í 6.-10. bekk úr öllum grunnskólum bæjarins gátu skilað inn mynd tengdri slagorðinu sem fer á plaköt til að vekja athygli á málefninu í bænum.

Sigurvegari teiknimyndasamkeppnarinnar er nemandi úr 7. bekk hér í skólanum, Magdalena Arinbjörnsdóttir, og má því með sanni segja að Sjálandsskóli hefur sett svip sinn á mótun forvarnavikunnar þetta árið. Myndina og umfjöllum um vikuna má sjá í Garðapóstinum sem kom út í dag.

Markmiðið með forvarnavikunni er að vekja athygli nemenda okkar á snjallsímanotkun og hvaða áhrif hún hefur á okkur, bæði góð og slæm.
Nemendur í 5.-10. bekk fá til sín fyrirlesara sem munu fræða þau um hitt og þetta tengt snjallsímanotkun, kvíða og andlegri líðan og eiga kennarar að vera búnir að fá tímasetningu fyrir þá.

Dæmi um verkefni og umræður kennara við nemendur í forvarnarvikunni:

• Hverjar eru jákvæðar og neikvæðar hliðar snjallsíma/tölvunotkunar, setja upp í dálka á töflu, ræða.
• Hvað eyðum við miklum tíma í símanum / tölvunni? Telja saman tímana á dag og setja upp í súlurit.
• Hvað gerum við þegar við erum í símanum / tölvunni? Í hvað notum við símann? Setja upp hugarkort.
• Hverju gætum við verið að missa af þegar við erum í símanum / tölvunni? Setja hugarkort upp á töflu með nemendum.
• Hvað getum við gert annað en að vera í símanum / tölvunni? Með fjölskyldum og vinum? Setja hugarkort upp á töflu með nemendum.
• Hvaða áhrif hefur of mikil tölvu- og snjallsímanotkun á okkur?
• Hvað sofum við marga tíma á sólarhring? Setja upp í súlurit. Er síminn að ræna okkur svefninn? Ræða um mikilvægi svefns.
• Búa til stuttmyndir um símanotkun og hversu mikið bæði fullorðnir og börn eru í símunum sínum. Fá þau til að búa til handrit að stuttu myndskeiði og vinna í Ipödum.
Til baka
English
Hafðu samband