Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Breytt skipulag skólahalds -mikilvægt!

16.03.2020
Breytt skipulag skólahalds -mikilvægt!

Eins og flestum er kunnugt um eru breytingar á skólastarfi vegna Kórona veirunnar. Starfsfólk skólans hefur um helgina og í dag sett upp nýtt skipulag fyrir skólastarfið sem tekur gildi 17. mars og gildir þar til annað kemur í ljós. Það hefur enginn greinst með COVID -19 í skólanum en það eru starfsmenn í sóttkví. Eins og við höfum líklega öll nú þegar kynnst þá getur það breyst mjög hratt og skipulagið breytist í samræmi við það. Við munum halda úti kennslu eins lengi og við getum en það kann að taka breytingum. Ég bið ykkur að lesa alla pósta sem koma frá Sjálandsskóla á næstu vikum.

Við höfum skipt nemendum í 20 nemendahópa og þeim munu fylgja sömu starfsmenn alla daga vikunnar. Þannig hefur list- og verkgreinakennurum og starfsmönnum í stoðþjónustu verið skipt niður á ákveðin teymi sem þeir munu fylgja næstu vikur. Nemendur mæta á misjöfnum tímum og ganga inn um ákveðna innganga. Nemendur verða alltaf á sama heimasvæði í skólanum og við notum allt húsnæðið til kennslu og alla innganga skólans. Umsjónarkennari hvers barns sendir upplýsingar seinna í dag hvar og hvenær barnið verður næstu skóladag.

Viðvera nemenda verður eftirfarandi:
• Nemendur í 1.-6. bekk koma daglega í skólann í 4 klst.
• Nemendur í 7. bekk koma daglega í skólann í 2,5 klst.
• Nemendur í 8.-10. bekk koma daglega í skólann í 2. klst.

Sælukot verður opið í framhaldi af skóladegi fyrir nemendur í 1.-3. bekk sem þar eru nú þegar skráðir. Tómstundaheimilið verður opið til kl.16:00 og nú með öðru sniði en áður. Við biðjurm foreldra að virða opnunartímann þar sem sótthreinsa þarf svæðin fyrir næsta skóladag.

Akstur frístundabíla fellur niður. Nemendur sem eru í Sælukoti koma með hádegismat og síðdegishressingu að heiman. Athugið að börnin þurfa að hafa með sér áhöld að heiman. Gætið ítrasta hreinlætis!

Nú reynir á okkur öll að vinna eftir öguðu skipulagi og virða þær reglur sem nú taka gildi. Við fylgjum ströngustu kröfum um að hópar skarist ekki í anddyrum, frímínútum eða á öðrum stöðum, því gildir eftirafandi.

Foreldrar og aðrir gestir mega ekki koma inn í skólahúsnæðið. Vinsamlega notið pósta ef þið þurfið að koma skilaboðum t.d. ef nemandi þarf að fara fyrr heim, það þarf að gera með dagsfyrirvara. Viðvera kennara í húsi verður takmörkuð.

• Nemendur verða að mæta á réttum tíma. Þeir komast ekki inn í skólann áður en þeirra hópur á að mæta og þeir mega ekki koma of seint.

• Kennarar taka á móti nemendum í anddyri og fylgja þeim út eftir skólalok. Skólahúsnæðinu verður læst á meðan kennsla er.

• Nemendur nota ákveðnar snyrtingar (þær verða merktar árgöngum). Þeir geta ekki farið af heimasvæði nema til að fara á snyrtingu eða í útikennslu.

• Íþróttir, sund auk list- og verkgreinatíma fallar niður. Við færum þá tíma inná heimasvæðin.

• Nemendur mega ekki koma eða vera í skólanum nema á þeim tíma sem þeim hefur verið úthlutað skv. skipulagi. Þannig geta þeir t.d. ekki komið að sækja bækur eða gögn sem þeir gleymdu.

• Nemendur koma með nesti að heiman.Nemendur í Sælukoti koma einnig með hádegismat og síðdegishressingu.

• Nemendur verða að koma klæddir eftir veðri, það verður dagleg útikennsla hjá öllum nemendum í 1.-6. bekk.

Já, þetta eru breyttir tímar. Við hér í Sjálandsskóla tökum þessari áskorun og u-beygju sem við fengum í fangið af æðruleysi, við ætlum að vera úrlausnamiðuð og munum hlúa að nemendum okkar eftir bestu getu. Það eru allir í sömu stöðu á sínum vinnustöðum. Við þurfum nú öll að vinna eftir öguðum reglum og nýjum vinnubrögðum. Starfsfólk skólans mun eftir fremsta megni gera skóladaginn fjölbreyttan og skemmtilega með nýjum formerkjum.

Hlutverk forráðamanna er að tryggja að börnin komi á réttum tíma skólann, verði sótt á réttum tíma og berið ábyrgð á því námi sem fært verður heim. Umsjónarkennarar senda ykkur upplýsingar um sína nemenda fyrir lok dagsins.

Nú hlúum við að hvert öðru, sínum skilning og virðingu.
Hlýjar kveðjur til ykkar allra.

f.h starfsfólks Sjálandsskóla
Edda Björg Sigurðardóttir, skólastjóri Sjálandsskóla

Myndir frá breyttu skipulagi skólarýmis

 

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband