Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Mat á skólastarfi

Innra mat

Sjálfsmat

Í lögum um grunnskóla nr. 66/1995 eru ákvæði þess efnis að sérhver skóli skuli innleiða aðferðir til að meta skólastarfið, þar á meðal kennslu- og stjórnunarhætti, samskipti innan skólans og tengsl við aðila utan skólans. Tilgangurinn með sjálfsmatinu er að kanna hvort markmiðum skólans hafi verið náð auk þess að greina sterkar og veikar hliðar í skólastarfinu þannig að umbótavinna geti farið fram. Fjölmargir þættir hafa áhrif á skólastarf og skólar þurfa að mæta margvíslegum þörfum.

Sjálfsmat verður að vera sífellt í gangi og hafa skýr markmið. Í sjálfsmatinu fer fram viðamikil gagnasöfnun um ýmsa þætti sem snúa að skólastarfinu. Umbætur, ígrundun og mat á skólastarfi eru lykilatriði fyrir skóla sem vilja ná framúrskarandi árangri.

Sjálfsmatsaðferðir Sjálandsskóla

Frá því að Sjálandsskóli tók til starfa 2005 hefur reglulega verið lagt mat á helstu þætti skólastarfsins. Notast hefur verið við mismunandi aðferðir sem aðlagaðar hafa verið að skólastarfinu á hverjum tíma. Flestir starfsmenn skólans hafa tekið þátt í að móta matið. Skólaráð hefur ennfremur tekið þátt í þeirri mótunarvinnu.

Starfsmannakannanir eru gerðar einu sinni til tvisvar á ári og eru framkvæmdar af stjórnendum. Þær eru notaðar til meta viðhorf til skólastarfsins, líðan á vinnustaðnum og til að meta þörf á símenntun til starfsfólks.

Starfsmannasamtöl fara fram á hverju ári og eru ábendingar sem fram koma notaðar í sjálfsmati og símenntunaráætlun skólans. Við mat á námsárangri nemenda eru skoðaðar niðurstöður kannana, prófa og símats. Niðurstöður samræmdra prófa, læsis prófa og annara staðlaðra prófa eru meðal annars notaðar til að meta gæði starfsins. Upplýsingar Námsmatsstofnunar um framfarir nemenda eru einnig
metnar og notaðar.

Skólaráð hefur metið skólanámskrá skólans árlega og gefur um hana umsögn. Niðurstöðurnar eru síðan notaðar sem eitt af tækjum til sjálfsmats. Reglulega eru haldnir fundir með skólaráði. Ábendingar sem koma fram á þessum fundum eru gjarnan teknar inn í sjálfsmat skólans. Önnur gögn sem notuð eru við sjálfsmatið eru stefna Sjálandsskóla, skólanámskráin, heimasíða skólans, niðurstöður kannana eins og
áður hefur verið greint frá, starfsmannafundir og forfallaskýrslur.

Skólapúlsinn er vefkerfi sem veitir skólastjórnendum stöðugan aðgang að nýjum upplýsingum sem aflað er mánaðarlega um þætti sem tengjast virkni nemenda og líðan þeirra í skólanum og um skóla- og bekkjaranda. Niðurstöður um stöðu nemenda í 6.–10. bekk eru bornar saman við niðurstöður fyrri mælinga í skólanum og við landsmeðaltal sem gefur skýrar vísbendingar um þróun mála í skólanum og stöðu nemenda miðað við nemendur í öðrum skólum í landinu. Skólapúlsinn gerir foreldra- og starfsmannakönnun annað hvert ár en nemendakannanir eru gerðar á hverju skólaári. Niðurstöður eru kynntar fyrir kennurum og unnið að úrbótum.

Sjálfsmat skólans og umbótaáætlun er í höndum stjórnenda skólans. Umsjón og ábyrgð við skipulag, framkvæmd og úrvinnslu matsverkefna hafa skóla- og aðstoðarskólastjóri. Unnið er að því að móta skýrara matsferli og setja niðurstöður fram á skipulegan hátt. Sjálfsmatsskýrsla hvers árs á ávallt að vera aðgengileg á heimasíðu skólans.

Allt starfsfólk skólans skal með einum eða öðrum hætti koma að matinu og byggja skal það á traustum gögnum. Matið skal bæði beinast að stofnuninni sjálfri og einstaklingum innan hennar. Matinu er ætlað að stuðla að árangri og styðja við umbætur. Sjálfsmatsskýrslur skal birta opinberlega.

Stjórnendur og starfsmenn koma að mati á heildarniðurstöðum skimana í námi nemenda og kannana sem gerðar eru á líðan nemenda og viðhorfum starfsmanna og foreldra/forráðamanna, og koma með tillögur að úrbótum. Þau gögn sem lögð eru til grundvallar eru t.d.:

  • Logos
  • Leið til læsis – lestrarskimun
  • Hraðlestrarpróf
  • Lesskilningspróf (Orðarún)
  • Niðurstöður samræmdra könnunarprófa í 4., 7. og 9. bekk
  • Matsniðurstöður tvisvar á ári, janúar og maí
  • Viðhorfskannanir
  • Skólanámskrá
  • Starfsáætlun Sjálandsskóla
  • Umbótaáætlun
  • Matsáætlun
  • Fjárhags- og rekstraráætlun
  • Skólapúlsinn
  • Starfsmannasamtöl

Við mat er farið í gegnum fyrirliggjandi gögn og niðurstöður þeirra notaðar til að ákvarða hvar sé brýnast að bera niður í umbótum og breytingum. Eftirfarandi gögn voru notuð til að forgangsraða þróunarvinnu:

  • Aðalnámskrá grunnskóla
  • Skólanámskrá
  • Niðurstöður samræmdra prófa
  • Skólapúlsinn
  • Sjálfsmatsskýrsla
  • Starfsmannaviðtöl

 

English
Hafðu samband