Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Samstarf skólastiga og samfella í skólastarfi

Móttaka nýrra nemenda og flutningur nemenda í aðra skóla

Lögð er áhersla á að taka hlýlega á móti nýjum nemendum og að veita þeim skýrar upplýsingar. Foreldrar og nemandi eru boðaðir í skólann til kynningar áður en kennsla hefst. Skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri fylgja nemandann og forráðamönnum hans um skólann og kynna þeim húsnæðið og skólastarfið.

Ef tök eru á kynnir hann einnig nemandann fyrir verðandi umsjónarkennara. Við komu nýs nemanda í hóp er sérstaklega stuðlað að því að hann tengist þeim sem fyrir eru og er þá einum eða nokkrum nemendum falið það hlutverk að fylgja honum um skólann fyrstu dagana og bjóða honum að vera með í frímínútum.

Námsráðgjafi tekur einnig á móti öllum nýjum nemendum og fylgist sérstaklega með þeim fyrstu vikurnar.

Tekið er á móti nemendum af erlendum uppruna í skólanum samkvæmt sérstakri móttökuáætlun.

Ef nemendur flytjast í aðra skóla hafa kennarar eða ritari skólans frumkvæði af því að senda með viðkomandi nemendum nauðsynlegar upplýsingar. Ef nemandi hefur verið í sérkennslu sér sérkennari um að upplýsingar þess efnis komist til skila.

Brúum bilið á milli leik- og grunnskóla

Gott samstarf er á milli leikskóla og grunnskóla í Garðabæ. Unnið er eftir starfssamningi sem kallaður er Brúum bilið. Markmiðið með þessum samningi er að auðvelda nemendum flutning úr leik- í grunnskóla. Kennarar fyrstu bekkja í skólanum fara á fund með tengiliðum leikskólanna í Garðabæ um miðjan október. Þar kynna skólarnir námskrár sínar og gefst þar kostur á að samræma starfið. Í nóvember fara kennarar fyrstu bekkja í heimsóknir í leikskólana. Eftir þessar heimsóknir koma leikskólakennarar úr viðkomandi leikskólum í heimsókn í skólann. Í mars senda leikskólarnir skólanum lista um væntanlega nemendur í 1. bekk. Í maí koma skráðir nemendur í heimsókn í skólann með starfsmanni leikskólans. Aðstoðarskólastjóri skipuleggur fyrirkomulag heimsókna. Skólastjórnendur taka á móti börnunum, ræða við þau og sýna þeim skólahúsnæðið. Í apríl/maí fer aðstoðarskólastjóri og sérkennari í heimsóknir á leikskólana og funda með leikskólakennurum um væntanlega nemendur skólans. Umsjónakennarar leikskólans og talmeinafræðingur veita skólanum upplýsingar um niðurstöður úr hljóðkerfisvitundarprófi, Hljóm – 2, skimun talmeinafræðings og málþroskaprófum þar sem það á við. Talmeinafræðingar hitta umsjónakennara 1. bekkja að hausti skömmu eftir að skóli hefst og kynna niðurstöður úr þessum prófunum.

Í maí er önnur skólaheimsókn leikskólabarna og fá þau þá að taka þátt hluta úr skóladegi í venjulegu skólastarfi. Eins og í fyrri heimsókninni fylgir starfsmaður leikskólans hópnum og er eins og áður einn leikskóli í einu. Þess er sérstaklega gætt að þau börn sem ekki sækja leikskóla eða eru á leikskólum annarra bæjarfélaga en eru væntanlegir nemendur í fyrsta bekk séu boðuð í þessar heimsóknir.

Sjálandsskóli og leikskólinn Sjáland hafa með sér sérstakt samstarf sem er öllu viðameira en hér hefur verið lýst.

Úr sjöunda í áttunda

Nemendur sem eru að hefja nám í 8.bekk hafa val um þrjá skóla í Garðabæ. Nemendur Sjálandsskóla sem eru að ljúka 7.bekk eru áfram innritaðir í unglingadeild skólans. Hyggist þeir fara í annan skóla þurfa forráðamenn að innrita þá í viðkomandi skóla og upplýsa skólann sem fyrst vegna skipulags skólastarfsins.

Skólaskrifstofa Garðabæjar setur upp vinnuferli vegna innritunar í 8. bekk sem hefst í byrjun mars. Haldnir eru kynningarfundir í mars fyrir nemendur og foreldra þar sem kynntar eru helstu áherslur í skólastarfi unglingadeildar skólans.

Þegar innritun hefur farið fram og ljóst í hvaða skóla hver fer þá funda umsjónarkennarar og sérkennarar
viðkomandi skóla. Þeir fara yfir nemendahópinn og ræða mál er varða nemendur og skipst er á upplýsingum um námsefni o.fl.

English
Hafðu samband