Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

 

Að vilja og virða

Grundvöllur að góðu skólastarfi er að hver og einn sýni sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu virðingu með framkomu sinni, orðum og gerðum. Þá þarf hver og einn að taka ábyrgð á sjálfum sér í samfélagi manna og sýna viljann til góðra verka. Í Sjálandsskóla teljum við að til þess að geta uppfyllt skyldu okkar að mennta sjálfstæða, ábyrga og virka einstaklinga þurfi að vanda til allra samskipta og byggja upp sjálfsaga og sjálfstraust hvers og eins nemanda.

Hvatt er til jákvæðra samskipta í stað þess að einblína á reglur, boð og bönn. Lögð er áhersla á ábyrgð frekar en blinda hlýðni og virðingu í stað ytri umbunar/refsingar. Með því að þjálfa með nemendum sjálfsstjórn er lögð áhersla að rækta með hverjum og einum nemanda hæfnina til þess að meta aðstæður, hugsa áður en hann framkvæmir og meta hugsanlegar afleiðingar orða og verka. Með auknum sjálfsaga lærir nemandinn að taka ábyrgð á orðum og athöfnum.

Við gerum öll mistök í lífinu, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna, nemendur eða starfsfólk. Það skiptir öllu máli hver breytnin er í kjölfar mistaka. Spurt er bæði hvernig við viljum vera og hvað við þurfum að gera til að ná eigin markmiðum í sátt og samlyndi við samferðamenn. Í Sjálandsskóla er lögð áhersla á að nemendur átti sig á mistökum sínum, læri af þeim; til dæmis með því að velta fyrir hvaða athafnir hefðu verið vænlegri til árangurs. Hvernig hefði barnið geta sýnt meiri sjálfsaga og ábyrgð? Með því að fá tækifæri til að bæta fyrir misgjörðir nær barnið með eigin viðleitni að endurheimta sjálfsvirðingu sína. Þessi uppeldisnálgun er jafnt í þágu þess sem beitir rangindum og þess sem beittur er rangindum.

English
Hafðu samband