Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sérstakir viðburðir á skólaárinu

Frá upphafi skólans hafa þróast ýmsir siðir og venjur sem tengjast sérstökum viðburðum á skólaárinu.
Hafa þeir allir það hlutverk að efla og bæta skólabraginn.

Skólasetning
Skólasetning fer fram á heimasvæðum nemenda á fyrsta skóladegi ár hvert. Þar er stutt samvera þar sem umsjónarkennara segja frá mikilvægum atriðum varðandi skólabyrjunina. Nýnemar hitta kennara á stuttum fundi fyrir fyrsta skóladaginn. Daginn eftir skólasetningu hefst svo formlegt skólastafs með morgunsöng allra nemenda í 1. – 7. bekk og starfsmanna.

Gróðursetningardagur í Sandahlíð
Sjálandsskóli fékk úthlutað landsvæði til ræktunar hjá Skógræktarfélagi Garðabæjar. Svæðið er í suðaustanverðri Sandahlíð nálægt Guðmundarlundi. Farið er árlega að hausti með allan nemendahópinn í gróðursetningar- og útivistarferð. Nemendahópnum er fjórskipt í vinnu. Á meðan einn hópur plantar undir stjórn starfsfólks Garðyrkjudeildar Garðabæjar eru hinir við leiki í Guðmundarlundi. Í hádeginu eru grillaðar pylsur og svo er frjáls leikur á svæðinu.

Skólabúðir á Reykjum
Á hverju hausti fara nemendur í 7.bekk í fimm daga ferð í skólabúðir á Reyki í Hrútafirði. Starfið er í öllum aðalatriðum byggt á sömu markmiðum og starf í almennum grunnskólum. Sérstök áhersla er lögð á að auka samstöðu og efla samvinnu milli kennara og nemenda, auka félagslega aðlögun nemenda, að nemendur fáist við áður óþekkt viðfangsefni, kynnist nýju umhverfi og ólíkum lífsmáta svo að eitthvað
sé nefnt. Umsjónarkennarar bekkjarins fylgja nemendum í skólabúðirnar.

Vinavika og 9. nóvember
9. nóvember árið 2011 fékk skólinn afhent íslensku menntverðlaunin. Þetta hefur orðið sérstakur hátíðisdagur og lok vinaviku tengist honum. Í vinaviku er lögð áhersla á náungakærleika, virðingu og gleði.

1. des. Fullveldisdagurinn
Fullveldisdagurinn er að jafnaði með þeim hætti að allir nemendur í skólanum fá aldurstengda fræðslu um þann atburð í sögunnu þegar Íslendingar fengu fullveldi. Nemendur í 8. bekk flytja dagskrá sem er samansett af ýmsum fróðleik um fullveldishátíðina 1918, aðdraganda hennar og líf og starf Íslendinga á þeim tíma. Nemendur skólans sem stunda nám við tónlistarskóla Garðabæjar flytja gjarnan tónlist við
þessa athöfn.

Dagur íslenskrar tungu
Þann 16. nóvember ár hvert er dagskrá í tengslum við Dag íslenskrar tungu sem er afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar. Hver árgangur vinnur að einhverjum verkefnum tengdum íslenskri tungu. Gjarnan er farið út fyrir skólann og kynna verkefnin.

Upplestrarkeppni
Á hverju ári er haldin upplestrarkeppni meðal nemenda í 7. bekk á Íslandi. Keppnin nefnist Stóra upplestrarkeppnin og hefur skólinn tekið þátt í henni. Hefst hún formlega á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember og henni lýkur í mars. Fyrri hluti keppninnar fer þannig fram að nemendur æfa sig í því að lesa upphátt fyrir samnemendur sína. Lýkur keppninni með upplestrarhátíð sem haldin er á sal skólans þar sem 2-3 nemendur eru valdir til áframhaldandi þátttöku fyrir hönd skólans. Í síðari hluta keppninnar keppa fulltrúar skólanna í Garðabæ og á Seltjarnarnesi um hver er besti upplesarinn. Markmiðkeppninnar er að:
• Að vekja athygli og áhuga nemenda á vönduðum upplestri og framburði
• Að nemendur þjálfist í að lesa upphátt
• Að nemendur þjálfist í að koma fram fyrir aðra
• Að nemendur þjálfist í að hlusta á aðra
• Að þjálfa nemendur í að temja sér góða og prúðmannlega framkomu

Aðventan
Markmið skólans er að hafa desember afslappaðan og notalegan mánuð. Stefnt er að því að hafa uppbrotsdag í vikunni fyrir fyrsta sunnudag í aðventu. Nemendur vinna þá í hópum ýmist að því að búa til jólaskraut fyrir skólann eða jólagjafir. Í desember ár hvert taka nemendur þátt samfélagsverkefni og aðstoða þá sem minna mega sín.
Næst síðasta daginn fyrir jólafrí er friðar- og góðverkadagur í skólanum. Nemendur hittast á sal skólans þar flytur skólakór Sjálandsskóla lög frá jólatónleikum kórsins og boðið verður uppá skemmtun. Að henni lokinni fara allir nemendur skólans í friðargöngu um nærumhverfi skólans. Eftir göngu vinna nemendur undir stjórn umsjónarkennara á sínum heimasvæðum að verkefnum sem tengjast góðverkum og kærleika. Í hádeginu borða nemendur og starfsmenn saman hátíðarverð í matsalnum.
Síðasta kennsludag fyrir jólafrí er jólaskemmtun í skólanum. Hefðbundin kennsla fellur niður þennan dag og nemendur mæta prúðbúnir á sína skemmtun. Hátíðardagskrá er á sal þar sem m.a. er fluttur helgileikur sem er í höndum nemenda í 5. bekk. Að sýningu lokinni fara nemendur í 5.-7.bekk á sín heimasvæði spila og halda stofujól en nemendur í 1. -4. bekk dansa í kringum jólatré undir stjórn tónlistarkennara, skólastjóra og nokkrum meðlimum skólakórsins. Þegar því er lokið fer umsjónarkennari með sínum nemendum í stofu og þar eru haldin stofujól. Nemendur unglingadeildar halda notalega jólastund á síðasta kennsludegi fyrir jól. Þau koma í náttfötum spila, horfa á jólamynd, gæða sér á kakó
og smákökum og hafa notalega jólastund á sínu heimasvæði.

Listviðburðir
Á hverju skólaári eru fengnir listamenn í heimsókn sem flytja efni fyrir nemendur í skólanum s.s. upplestur, leiklist eða tónlist. Markmiðið með því er að sjá til þess að nemendum sé boðið upp á fjölbreytta listsköpun og kenna þeim að njóta hennar.

Stigið á stokk
Lögð er áhersla á að allir nemendur í 1.-10. bekk fái tækifæri til að stíga á svið a.m.k. einu sinni á hverju skólahári. Í upphafi skólaárs er umsjónarhópunum skipt niður á ákveðnar dagsetningar þar sem hver umsjónarhópur á að sjá um skemmtiatriði í morgunsöng a.m.k. einu sinni á hvorri önn yfir veturinn. Allir aðrir nemendur fá þá að fylgjast með. Aðalmarkmiðið með þessum stundum er að:
• Gefa nemendum tækifæri til að koma fram og flytja atriði fyrir skólafélaga sína
• Þjálfa nemendur í að temja sér góða og prúðmannlega framkomu á samkomum
• efla sjálfstraust nemenda
• Efla og ýta undir listsköpun nemenda
• Þjálfa nemendur í að hlusta á flutning atriða

Íþróttadagur og vorleikar
Markvisst er unnið að því að efla hreyfingu og útiveru nemenda í skólanum. Meðal annars eru útikennslutímar fastir í töflu hjá nemendum í 1.-7.bekk. Þrír skipulagðir dagar tengjast hreyfingu þ.e. íþróttadagar á haustin og vorleikar að vori. Á íþróttadegi og á vorleikum taka nemendur og starfsfólk þátt í hinum ýmsu íþróttagreinum og þrautum. Lögð er áhersla á að mikla fjölbreytni svo að flestir fái eitthvað við sitt hæfi. Markmið með slíkum dögum er að stuðla að aukinni hreyfingu, efla samkennd og félagsanda innan skólans.

Öskudagur
Nemendur klæða sig í búninga, syngja í „verslunum“ sem settar eru upp í skólanum (foreldrar gefa sælgæti), leysa fjölbreyttar þrautir og fara í gegnum draugahús.

Vetrarferð til fjalla
Árlega fara allir nemendur í 1.-7. bekk og starfsmenn í dagsferð til fjalla. Nemendur í 6. bekk gista eina nótt í Bláfjöllum. Nemendur sem kjósa að fara á skíði eða snjóbretti hafa tækifæri á því og njóta þá leiðsagnar kennara skólans. Þeir sem ekki vilja skíða, geta rennt sér á snjósleða að farið í aðra leiki. Forráðamenn er hvattir til að mæta með okkur og eiga notalega stund í fjallinu.
Nemendur unglingadeildar fara í 4. nátta skíðaferð á vegum félagsmiðstöðvarinnar Klakans. Undanfarin ár hefur verið farið á Dalvík.

Dagur umhverfisins – 25. apríl
Árgangar fara um skólalóð og næsta nágrenni skólans, tína upp rusl og taka til hendinni með fjölbreyttum hætti.

112. dagurinn
Árlega þann 11. febrúar er 112 dagurinn haldinn um allt land. Sjálandsskóli tekur þátt í deginum og nemendur fá fræðslu eftir aldursstigum. Allir fá fræðslu um fyrstu hjálp og um neyðarnúmerið 112. Auk þess fá nemendur dýpri fróðleik um ákveðin mál og þannig byggt ofan á þekkinguna með árunum. Þannig munu nemendur í 1.-2.b. fá umferðarfræðslu, nemendur í 3.b.-4b. fá fræðslu um brunavarnir, 5-7.bekkur verður kennt að binda um sár, 112 appið verður kynnt og fyrsta hjálp. Á unglingastigi verður farið dýpra í skyndihjálp og fyrsta hjálpa rifjuð upp á hverju ári.

Árshátíð unglingadeildar
Árshátíð unglingadeildar er haldin á vorönn, yfirleitt í apríl mánuði. Unglingar í félagsmálavali skipuleggja dagskrá árshátíðarinnar ásamt forstöðumanni félagsmiðstöðvarinnar. Kennurum og öðru starfsfólki skólans er boðið á árshátíðina og foreldrar unglinganna aðstoða við að framreiða matinn. Árshátíðin er haldin í hátíðarsal skólans og er dagskrá ávallt hin glæsilegasta.

Ferðir
Á hverju skólaári fara nemendur skólans ásamt kennurum sínum í ýmsar ferðir. Farnar eru vettvangsferðir í tengslum við útikennslu og farið á söfn og sýningar. Í skólaferðum er leitast við að blanda saman námi og skemmtun og því er litið á allar ferðir skólans sem órjúfanlegan hluta af fjölbreyttu skólastarfi. Að öllu jöfnu er um að ræða ferðir á skólatíma. Nemendur í 7. bekk fara þó í 5 daga ferð í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði og nemendur á unglingastigi fara í vor, haust og skíðaferðir með félagsmiðstöðinni Klakanum.

Vordagar
Í lok skólaársins er útivistardagur og innilega í Sjálandsskóla. Dagurinn er skipulagður og haldinn í samráði við foreldrafélag skólans. Dagurinn hefst á sameiginlegri fjallgöngu nemenda í 5.-7. bekk en nemendur í 1.-4. bekk fara í léttari göngu. 
Nemendur í 8. og 9. bekk í einnar náttar ferð. Áfangastaðir eru mismunandi á milli ára. Hefð hefur skapast fyrir því að nemendur í 10. bekk fara í tveggjanáttaferð í Þórsmörk. Skipulag og utanumhald ferða í unglingadeildinni er í höndum félagsmiðstöðvarinnar Klakans.

English
Hafðu samband