Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sjálandsskóli tók til starfa í ágúst 2005. Hann er staðsettur við Löngulínu 8 í Garðabæ.

Fyrsta starfsár skólans voru við skólann 80 nemendur í 1.-6. bekk í fullbúnum fyrsta áfanga skólans. Annar áfangi skólans með fjölnota samkomusal, tónlistar-, íþrótta- og tómstundamiðstöð var tekinn í notkun haustið 2009. Haustið 2010 var í fyrsta skipti boðið upp á nám í unglingadeild og þar með varð skólinn heildstæður grunnskóli með um 250 nemendur. Næstu ár á eftir hélst fjöldi nemenda nokkuð
sambærilegur.

Skólinn hefur frá upphafi verið nýttur af fleiri en einni stofnun. Fyrstu árin voru hér einnig leikskólar, annars vegar leikskólinn Sjáland í eitt ár og hins vegar leikskólinn Montessori setrið í tvö ár. Alþjóðaskólinn á Íslandi hóf svo störf í skólahúsinu haustið 2006 og hefur verið sambýlingur Sjálandsskóla frá þeim tíma. Frá upphafi hefur Tónlistarskóli Garðabæjar haft starfsstöð í Sjálandsskóla. Byggingin varð svo að sannkallaðri samfélagsmiðstöð með tilkomu 2. áfanga skólans enda er þar afar góð aðstaða til ýmissa samkoma, tónlistariðkunnar og margvíslegra íþrótta.

9. nóvember 2011 hlaut skólinn Íslensku menntaverðlaunin, í flokknum Skóli sem sinnt hefur nýsköpun.
Í umsögn dómnefndar segir:
Frá upphafi voru starfinu sett afar metnaðarfull markmið. Áhersla var lögð á einstaklingsmiðað nám, fjölbreytta, sveigjanlega og lýðræðislega kennsluhætti, sköpun og tjáningu. Skólabyggingin sjálf er einstakt umhverfi utan um þetta metnaðarfulla starf. Kennslurýmin eru opin og áhersla lögð á að nemendur taki þátt í að skipuleggja námið. Þeir gera sér námsáætlanir í samstarfi við kennara sína og bera meiri ábyrgð á starfi sínu en víða gerist. Fáir skólar bjóða jafn fjölbreytt og áhugavert val á unglingastigi. Þar geta nemendur valið milli 50 ólíkra viðfangsefna; útieldun, ítölsk matargerð, skartgripagerð, kajakróður, franska, sagnfræði og fatahönnun eru dæmi um þetta fjölbreytta val sem stenst fyllilega samjöfnuð við það sem gerist í fjölmennustu skólunum.

Í nóvember 2014 hófst formlega 10 ára afmælisár skólans með samkomu á sal og ávarpi Gunnars Einarssonar bæjarstjóra. Í tilefni afmælisins gáfu foreldrar skólanum skólalag, Sjálandsslagið.
Höfundur lags og texta er Heiðar Örn Kristjánsson

Sjálandslagið
Skólinn minn í Sjálandi
skjólið mitt.
Félagslífið flæðandi,
fjölbreytt og marglitt.

Sjálandsskóli er skólinn minn.
Skapa´og vilja er lykillinn.

Vinátta og virðing, von og samhljómur.
Hraustleg hreyfing og hrífandi lærdómur.
Lifandi leikur og lífsgleði í Sjálandi.

English
Hafðu samband