Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Skólinn er staðsettur við Löngulínu 8 í Garðabæ, við sjóinn. Beygt er norður Vífilstaðaveg frá Hafnarfjarðarvegi (við Olís bensínstöðina).

Kort má finna á kortavef Garðabæjar og á ja.is

Skólahúsnæðið

Við hönnun Sjálandsskóla var forhönnun skólans byggð upp á sk. Design Down Process aðferð en hún byggir m.a. á því að áhugasömu fólki var boðið að koma að forhönnun skólans s.s. fræðimönnum í kennslufærði, áhugasömum foreldrum, fulltrúum frá bænum og arkitekt. Haldnir voru fjöldamargir fyrirlestrar sem fjölluðu um hugmyndafræði opinna skóla og þátttakendur fengnir til að rissa upp hugmyndir sínar. Orri Árnason arkitekt hjá Zeppelín var fljótlega ráðinn til verksins sem arkitekt skólans.

Skólahúsnæði Sjálandsskóla er opið og sveigjanlegt. Það sem aðgreinir Sjálandsskóla meðal annars frá hefðbundnum skólum eru heimasvæðin. Í stað hefðbundinna kennslustofa er sameiginlegt vinnusvæði 40-70 nemenda úr einum til tveimur árgöngum. Í samráði við kennara eru nemendur aðstoðaðir við að finna út hvaða námsaðstæður henta þeim best. Í húsnæðinu eru vel búnar textíl-, myndmennta-, tónlistar- og smíðastofa. Þá er innangengt í íþróttahús Sjálandsskóla þar sem er inni sundlaug, danssalur og íþróttasalur. Í íþróttahúsinu fer fram starfsemi tómstundaheimilisins Sælukots eftir að skóladegi lýkur fyrir nemendur í 1. – 4. bekk. Húsnæðinu er skipt niður í mismunandi vinnusvæði þar sem nemendur geta bæði unnið í stórum og litlum hópum.

Aðalinngangurinn er að vestanverðu við Löngulínu fyrir miðju skólans. Þaðan er gengið inn í íþróttamiðstöð og samkomusal skólans. Skrifstofur Sjálandsskóla eru á efri hæð skólans í austurálmu næst sjónum.
Austur inngangar eru þrír. Sá sem næstur er Vífilsstaðavegi er ætlaður nemendum unglingadeildar og nemendum í 6.- 10. bekk  Sá í miðið er ætlaður nemendum í 1.-5.bekk. Inngangurinn næst sjónum er ætlaður gestum og starfsmönnum.

Bílastæði við Löngulínu eru skammtímastæði. Bílastæði skólans eru austan við íþróttavöllinn fyrir ofan Ránargrund. Þeir sem koma akandi að skólanum með börn sín eru beðnir um að nota sleppistæði við hringtorgið. Foreldrar eru hins vegar vinsamlegast beðnir um að leggja ekki bifreiðum í hringtorgið ef þeir eiga erindi inn í skólann heldur leggja í bílastæðin. Nemendur eiga að ganga inn í skólann þar sem þeirra vinnusvæði er og skór þeirra þurfa alltaf að vera í skóhillum sem eru merktar þeirra árgangi.

Aðkoma neyðar- og þjónustubíla er um Ránargrund. Öðrum er ekki heimilt að koma þá leið að skólanum. Nemendur eru ávallt hvattir til að koma gangandi eða hjólandi í skólann. Nauðsynlegt er að foreldrar finni með börnum sínum bestu og öruggustu leiðina í skólann, hvetji þau til að nota gangbrautir og bendi þeim á slysagildrur sem ber að varast. Nauðsynlegt er að nemendur séu með endurskinsmerki svo ökumenn eigi auðveldara með að sjá þá í skammdeginu.

Í Garðabæ hafa foreldrar val um grunnskóla fyrir börn í 1.-10. bekk og um eiginleg skólahverfi er ekki að ræða. Nærumhverfi skólans er: Sjáland, Ásar, Grundir og Nes og markast það að Hafnarfjarðarvegi í suður, Gálgahrauni í vestur, Arnarnesvogi í norður og Kópavogi í austur.

English
Hafðu samband